Fótbolti

Sif: Ég get ekki hætt svona

Ástrós Ýr Eggertsdóttir á Laugardalsvelli skrifar
Sif Atladóttir er einn okkar reyndasti varnarmaður
Sif Atladóttir er einn okkar reyndasti varnarmaður vísir/daníel
Ísland fer ekki á HM 2019 eftir jafntefli við Tékka í lokaleik undankeppninnar í dag. Sif Atladóttir var að vonum vonsvikin eftir leik.

„Svekk maður, vá hvað ég er svekkt,“ voru fyrstu viðbrögð Sifjar strax að leik loknum. Ísland gerði 1-1 jafntefli sem dugði ekki til að vera eitt af fjórum bestu liðunum í öðru sæti og því komst liðið ekki í umspil.

Íslenska liðið hefur oft spilað betur en í dag þrátt fyrir skot í stöng og slá og misnotaða vítaspyrnu.

„Við mættum bara ekki alveg í fyrri hálfleikinn og það er bara ógeðslega dýrt á þessu augnabliki.“

„Svona er þetta, hann fór ekki inn í dag því miður. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja, þetta var flott víti hjá Söru en markmaðurinn gerir vel og svona er þetta.“

Sif er einn af reynsluboltum íslenska liðsins en hún segist ekki vera tilbúin í að kveðja liðið alveg strax.

„Við skoðum það. Ég get ekki hætt svona, ég þarf bara að taka spjall við fjölskylduna og svona,“ sagði Sif Atladóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×