Íslenski boltinn

Rúnar: Tölfræðilega er þetta ekki búið en þetta er erfiðara

Árni Jóhannsson á Samsungvellinum í Garðabæ skrifar
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfar Stjörnuna
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfar Stjörnuna vísir/bára
Þjálfari Stjörnunnar var að sjálfsögðu svekktur með úrslit leiksins á móti KA fyrr í kvöld. Liðin gerðu 1-1 jafntefli á heimavelli Stjörnunnar í Garðabæ. Úrslitin þýða að forskot Vals á Stjörnuna eru þrjú stig þegar tvær umferðir eru eftir af Íslandsmótinu. Hann var spurður að því hvort að það sem hann tæki úr leiknum væru tvö töpuð stig.

„Það er ekkert annað til að taka héðan. Þetta var hörkuleikur, KA menn voru góðir í dag og við vorum klaufar að nýta ekki færin okkar betur,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, að leik loknum.

Rúnar var spurður að því hvort úrslitaleikur bikarkeppninnar hafi eitthvað setið í hans mönnum og hló hann örlítið áður en hann svaraði enda mikil klisja þessi bikarþynnka.

„Nei, heilt yfir var ágætis skipulag og kraftur í okkur. Þú sást það í lokin að það var fínn kraftur í okkur. Jú jú það voru einhverjir hjá okkur þreyttir hérna um miðbiki hálfleiksins en það er engin afsökun fyrir því að klára ekki þennan leik.“

Eins og sagði áðan þá er forskot Valsmann þrjú stig og vildi Rúnar Páll meina að baráttan væri orðin erfiðari en hún væri ekki búin.

„Þetta er ekki búið, tölfræðilega er þetta ekki búið en þetta er erfiðara.“

„Við fáum ágætis færi til að skora í leiknum, hann varði feykivel strákurinn hjá þeim í markinu, tala nú ekki um hérna þegar Sölvi skorar markið sem var dæmt af. Við vorum svo með færi hérna á síðasta korterinu sem við hefðum átt að nýta betur, við vorum stórhættulegir. Hilmar Árni fékk dauðafæri til dæmis þar sem erfiðara er að skjóta framhjá en að skora. Þegar maður nýtir ekki svona móment þá er það náttúrlega dýrt. Ef við hefðum nýtt þessi færi þá hefðum við unnið leikinn en svona er þetta, stutt á milli“, sagði Rúnar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×