Rosalegir ráðherrar
Ráðherrabílar eru eitt mesta bruðl síðari ára. En af hverju að hætta þar? Af hverju ekki að fljúga Xzibit, úr þáttunum Pimp My Ride, hingað og blinga upp ráðherrabílana? Það er frábær hugmynd.

Fyrst það var hægt að eyða öllum þessum milljónum í lýsingu er hægt að eyða álíka í hita í Nauthólsvík. Sólbað í nóvember, þökk sé ríkisstjórninni. Það myndi tryggja þeim fjögur ár til viðbótar. Það er frábær hugmynd.

Af hverju að fara út úr borginni til að sjá hin ótrúlegu norðurljós? Af hverju ekki að breyta bara Klambra túni í eitt stórt Norðurljósatún? Ljósasérfræðingar ríkisins munu hanna einhverja klikkaða sýningu. Það er frábær hugmynd.

Fyrir 22 milljónir má kaupa sér örlítinn kofa á Spáni. Af hverju á íslenska þjóðin ekki orlofshús þar í landi? Sól og sangría í boði ríkisins. Það er frábær hugmynd

Hver vill ekki skoða hvali? Núna er tíminn til að byggja einhverja svakalegustu göngubrú allra tíma eitthvert lengst út á haf og sjá hvali sem reglulega heimsækja landið. Þeir eru alltaf að koma nær og nær eins og dæmin sanna í sumar. Það er frábær hugmynd.

Nú er voðalega vinsælt á Alþingi að ætla að banna bensínspúandi bíla. Það væri því ekki vitlaust að kaupa Segway-hjól fyrir ríkisstjórnina og láta þau reyna að fara á milli staða með rafmagnið að vopni. Það er frábær hugmynd.

Alþingi er niðri í miðbæn. Og það þarf að losna við bíla úr morgunumferðinni. Alþingismenn keyra mikið. En af hverju ekki að fara sjóleiðina? Sæþotur á liðið. Það er frábær hugmynd.
