Innlent

22 milljónir í lýsingu og 9 milljónir í hönnun og ráðgjöf

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá hátíðarfundinum þann 18. júlí síðastliðinn. Töluvert færri mættu á fundinn en búist var við.
Frá hátíðarfundinum þann 18. júlí síðastliðinn. Töluvert færri mættu á fundinn en búist var við. Vísir/Einar Árna
Heildarkostnaður við hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum þann 18. júlí síðastliðinn nam rétt tæpum 87 milljónum króna og fór því rúmar 40 milljónir fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun. Kostnaðurinn var birtur sundurliðaður á vef Alþingis í dag. 

Samkvæmt sundurliðuninni var mestu varið í efni og vinnu vegna palla og gangvega, eða um 39,1 milljónir króna. Þá var rétt rúmum 22 milljónum eytt í lýsingu á viðburðinum, tæpum 9,2 milljónum í hönnun og ráðgjöf og 4,6 milljónum í raflögn.

Þá nam ferðakostnaður vegna viðburðarins 1,4 milljón króna og 2,2 milljónum var varið í veitingar. Alla kostnaðarliði má sjá á mynd hér fyrir neðan.

Skjáskot/Alþingi
Á vef Alþingis segir jafnframt að kostnaður hafi verið „nokkuð umfram áætlun“. Það sé einkum vegna þess að tekin var ákvörðun um að hafa lýsingu og hljóð af bestu gæðum þar sem atburðurinn var sýndur í beinni útsendingu. Þá muni vinna við að bæta og laga göngustíga á Þingvöllum fyrir viðburðinn áfram nýtast gestum þjóðgarðsins.

Greint var frá því í júnílok að kostnaður  vegna fundarins í rekstraráætlun hafi verið um 45 milljónir króna. Fljótlega varð svo ljóst að kostnaðurinn myndi fara nokkuð fram úr áætlun. Þann 17. júlí síðastliðinn, degi fyrir hátíðarfundinn, sagði Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, að kostnaður við hátíðahöldin væri áætlaður 70-80 milljónir króna.

Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, ávarpar hátíðarfund á Þingvöllum þann 18. júlí síðastliðinn. Boð hennar á fundinn reyndist umdeilt.Vísir/Anton
Þá var búist við því að nokkur þúsund gesta myndu láta sjá sig á hátíðahöldunum en aðeins um 300 manns mættu á Þingvelli umræddan dag, þar af nokkur fjöldi erlendra ferðamanna.

Hátíðarfundurinn varð umdeildur, bæði vegna umframkostnaðar og þeirrar ákvörðunar að bjóða Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, að flytja ávarp á fundinum. Fulltrúar Pírata sniðgengu til að mynda fundinn vegna komu Kjærsgaard og þá vék þingmaður Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir, af honum þegar Kjærsgaard flutti ræðu sína.

Í fyrri útgáfu þessarar fréttar var birt upphafleg sundurliðun kostnaðar vegna fundarins frá Alþingi. Hún var síðar endurbirt þar sem átta milljónir króna vantaði í kostnaðarliðinn Pallar og gangvegir (efni og vinna). Fréttin hefur verið leiðrétt í samræmi við þessar upplýsingar.




Tengdar fréttir

Táknrænar aðgerðir þingmanna á hátíðarfundi

Margir þingmenn úr hinum mismunandi stjórnmálaflokkum sýndu þá óánægju sína í ljós með því að bera sérstaka límmiða til höfuðs rasisma með áletruninni "Nej til racisme“ eða "Nei við kynþáttahyggju“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×