Erlent

Netanyahu harður á því að Hezbollah fái ekki vopn

Samúel Karl Ólason skrifar
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. Vísir/AP
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir að Ísraelar muni ekki sætta sig við að óvinir sínir fari yfir svokallaðar „rauðar línur“ í Sýrlandi. Ísrael hefur verið sakað um loftárásir nærri Damascus í gær, sem munu hafa beinst gegn vopnasendingum Íran til Hezbollah hryðjuverkasamtakanna. Það yrði ekki í fyrsta sinn sem Ísraelar gera slíkar árásir en þeir hafa ítrekað staðhæft að þeir muni ekki sætta sig við vopnasendingar til Hezbollah.

Samkvæmt Times of Israel beindist árásin í nótt gegn flutningaflugvél frá Íran sem á að hafa verið notuð til að flytja vopn frá Íran og gegn nokkrum vopnabúrum á flugvellinum þar sem flugvélinni hafði verið lent.



Þá segir einnig að vopnabúrin hafi verið dulbúin og hafi meðal annars verið merkt sem húsnæði Sameinuðu þjóðanna og DHL.

„Ísrael er ávalt að koma í veg fyrir að óvinir okkar verði sér út um þróaðan vopnabúnað,“ sagði Netanyahu í dag. „Rauðu línur okkar eru skýrar sem áður og við erum staðfastir í að framfylgja þeim.“

Fyrr í þessum mánuði viðurkenndiríkisstjórn Ísrael að hafa gert rúmlega 200 árásir í Sýrlandi á síðustu 18 mánuðum og flestar hafi þær beinst gegn Írönum.



Stjórnarher Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, segist hafa skotið niður einhverjar eldflaugar. Sýrlenska mannréttindavaktin, sem fylgist náið með vendingum í Sýrlandi, segir árásina hafa valdið miklum skaða á flugvellinum.


Tengdar fréttir

ISIS-liðar felldir af Ísrael og Jórdaníu

Yfirvöld Ísrael og Jórdaníu segja að vígamenn Íslamska ríkisins sem flúið hafi sókn stjórnarhers Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, í átt að landamærum ríkjanna hafi verið felldir.

Ísraelar skutu niður sýrlenska þotu

Í tilkynningu frá hernum segir að miklir bardagar eigi sér stað Sýrlandsmegin við landamæri ríkjanna og að þotunni hafi verið flogið tæpa tvo kílómetra inn í lofthelgi Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×