„Ég held að það hljóti að teljast jákvætt,“ segir Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, um þær fréttir að flugfélaginu WOW Air hafi tekist að tryggja að skuldabréfaútgáfan verði að lágmarki 50 milljónir evra, eða um 6,3 milljarðar íslenskrar króna miðað við gengi dagsins í dag.
WOW greindi frá þessu í tilkynningu til fjölmiðla nú síðdegis í dag. Þar kom fram að skuldabréfaútboði WOW ljúki þriðjudaginn 18. september klukkan 14 að íslenskum tíma.
Er skuldabréfafjármögnun WOW hugsuð sem brúarfjármögnun að áformuðu hlutafjárútboði.
Konráð segir að þó þetta séu jákvæðar fréttir frá flugfélaginu þá eigi ýmislegt eftir að koma ljós, til dæmis hvað upphæðin verður í raun há af þessu skuldabréfaútboði og þá eigi eftir að koma í ljós hvort hlutafé verði aukið.
„Þetta er allavega skref í rétt átt en ég held að almennt séð þá eru enn þessar áskoranir á markaði sem félagið hefur staðið frammi fyrir,“ segir Konráð.
Þar á meðal er mikil samkeppni í flugi yfir Atlantshafið, hátt olíuverð og sterk króna.
„Þetta á allt saman ennþá við, en þetta er engu að síður jákvæðar fréttir sem komu í dag.“
Segir fregnir af skuldabréfaútboði WOW jákvæðar
Tengdar fréttir
Skúli nálgast endamarkið
Fjárfestar voru í gær búnir að skrá sig fyrir um 45 milljónum evra í útboði WOW air. Stjórnendur félagsins fullvissir um að lágmarksstærð útboðsins verði náð.
WOW nær 50 milljóna evra markinu
Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW Air vegna skuldafjárútboðs flugfélagsins.