Bessastaðir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og kona hans, Eliza Reid, eru í heimsókn á Austurlandi þessa dagana.
Heimsókn forsetahjónanna hófst í gær með kvöldverði með íbúum á Borgarfirði eystra í félagsheimilinu Fjarðarborg. Fyrr um daginn var forsetinn við setningu Alþingis við Austurvöll.
Í dag og á morgun er þétt dagskrá víða um Fljótsdalshérað og Fljótsdalshrepp. Fjölskylduhátíð verður í kvöld í Valaskjálf. „Íbúar eru hvattir til að koma í Valaskjálf og spjalla við forsetann og forsetafrúna yfir kaffibolla,“ segir á vef Fljótsdalshéraðs.
