Fótbolti

Hjörtur með fyrirliðabandið er Bröndby fór áfram í bikarnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hjörtur í leik með Bröndby.
Hjörtur í leik með Bröndby. vísir/getty
Hjörtur Hermannsson var með fyrirliðabandið er Bröndby vann 4-1 sigur á C-deildarliði Hilleröd í dönsku bikarkeppninni í dag.

Bröndby er ríkjandi bikarmeistari eftir sigur á Silkeborg í úrslitaleiknum á síðustu leiktíð en þar lék Hjörtur stórt hlutverk.

C-deildarliðið komst hins vegar yfir á heimavelli í dag eftir tólf mínútur er Mikkel Andersen skoraði eftir laglega skyndisókn.

Það virtist ætla vera staðan í hálfleik en í þann mund sem dómari leiksins flautaði fyrri hálfleikinn jafnaði Mikael Uhre með skalla eftir hornspyrnu.

Eftir klukkutíma var það svo Mikael Fisker sem kom Bröndby í 2-1 og þrettán mínútum síðar skoraði Besar Hailimi þriðja mark Bröndby með frábæru vinstri fótar skoti.

Þremur mínútum fyrir leikslok var það svo Ante Erceg sem skoraði fjórða mark Bröndby eftir að hafa sloppið einn gegn markverði Hilleröd. Lokatölur 4-1 sigur Bröndby.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×