Íslenski boltinn

Formaður Fjölnis: Mörg félög í rekstarvanda en við hvað hreinskilnastir

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnis, segir að það séu mörg félög á Íslandi í rekstrarvanda en að Fjölnismenn séu einna hreinskilnastir hvað vandann varðar.

Á dögunum mátti finna ársreikning knattspyrnudeildar Fjölnis þar sem stóð að ekki væri hægt að halda starfsemi meistaraflokks félagsins í sömu mynd því tapið væri það mikið.

Eftir hagnað upp á tæpar hundrað þúsund krónur 2016, þá var tapið rúmlega 26 milljónir króna árið 2017 og ekki skánaði þetta fyrir Fjölnismenn um helgina sem féllu úr Pepsi-deildinni þar sem tekjurnar eru mun meiri en í Inkasso-deildinni.

„Svo við byrjum á byrjuninni þá erum við með ódýrasta meistaraflokkinn,” sagði Jón Karl í samtali við Ríkharð Óskar í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Þetta snýst að endingu hvað miklar tekjur koma inn af leikjunum og það eru mörg félög í vandræðum að fá tekjur.”

„Við sjáum hvernig áhorfendurtekjurnar eru, stuðningsaðilar eru mjög mikilvægir en þeir halda að sér höndum og eru að færa sig yfir í sérsamböndin og fleira.”

„Það eru mörg félög í ákveðnum rekstrarvanda og við erum kannski hvað hreinskilnastir að tala um þetta. Ef við ræðum þetta ekki og vinnum ekki úr þessu, ekki bara Fjölnir heldur önnur félög, verður það bara vond niðurstaða.”

Fjölnir leikur í Inkasso-deildinni á næstu leiktíð en verður liðið útlendingarlaust í Inkasso á næsta ári?

„Það hefur hingað til verið stefnan að byggja á ungum og efnilegum leikmönnum. Við erum með mjög sterka flokka að koma upp. Það á eftir að setjast niður og ræða það," segir Jón sem leynir ekki vonbrigðunum að leika í Inkasso-deildinni á næstu leiktíð.

„Þetta eru vonbrigði. Það er ekkert hægt að leyna því en á þessu stigi er ekki búið að taka neinar ákvarðanir um hvernig þetta verður. Það verður sest yfir og farið yfir það. Við ætlum okkur beint upp aftur.”

Verður Ólafur Páll Snorrason áfram þjálfari Fjölnis?

„Það þarf að ræða líka.”

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×