Sport

Leikmaður Vikings hótaði að skjóta mann á liðshótelinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það er eitthvað furðulegt í gangi hjá Everson Griffen.
Það er eitthvað furðulegt í gangi hjá Everson Griffen. vísir/getty
Besti varnarmaður Minnesota Vikings, Everson Griffin, spilaði ekki með liðinu um nýliðna helgi er Víkingunum var slátrað af Buffalo Bills. Þjálfari liðsins, Mike Zimmer, sagði að Griffen hefði ekki spilað af persónulegum ástæðum.

Það hefur síðan komið í ljós að eitthvað mjög sérkennilegt var í gangi hjá Griffen kvöldið fyrir leik á liðshóteli Vikings.

Að því er ABC í Minneapolis segir þá voru læti í Griffen. Hann hljóp fram og til baka í „lobbíi“ hótelsins og á einhverjum tímapunkti hótaði hann að skjóta einhvern. Aldrei sást nein byssa.

Skíthræddir starfsmenn hótelsins forðuðu sér á bak við í öllum látunum. Griffen ku hafa viljað láta hleypa sér inn á herbergi og hótaði einnig að ganga í skrokk á starfsfólki.

Leikmaðurinn var ekki handtekinn en yfirgaf hótelið eftir að hafa rætt við lögreglu. Ekki er vitað hvað sé að plaga Griffen en talsmenn Vikings segja að þeir séu að vinna í málum Griffen með honum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×