Íslenski boltinn

Línuvörðurinn sagði Lennon hafa slegið í áttina að sér og kallað sig „a fucking joke“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
FH-ingar eru ósáttir við rauða spjaldið.
FH-ingar eru ósáttir við rauða spjaldið. mynd/skjáskot
Steven Lennon, framherji FH, verður ekki með liðinu á sunnudaginn þegar að liðið mætir Val í stórleik í Pepsi-deild karla en hann fékk rautt spjald í síðasta leik á móti Víkingi.

FH-ingar voru verulega ósáttir með rauða spjaldið sem Lennon fékk en Birkir Sigurðarson, aðstoðardómari eitt í leiknum, sagði Einari Inga Jóhannssyni að gefa Skotanum rautt. Enginn vissi af hverju en nú er hægt að sjá það.

Hafnafjarðarliðið var með eigið tökulið á hliðarlínunni sem að náði öllum látunum en FH er búið að birta æsinginn á Facebook-síðu sinni og texta hluta af látunum.

„Þú hlýtur að vera að djóka maður. Hann skutlar sér niður,“ segir reiður aðstoðarþjálfari FH, Ásmundur Guðni Haraldsson en dæmd var aukaspyrna á Lennon fyrir að brjóta á Jörgen Richardsen, bakverði Víkings.

Einhver heyrist segja að Víkingurinn sé algjör aumingi. Lennon lætur svo eitthvað út úr sér sem heyrist illa og er ekki textað en segir svo: „Þetta er ekki einu sinni gult spjald. Lærðu fokking leikinn, maður. Ég kom varla við hann.“

Þá heyrist í Birki kalla á Einar dómara nokkrum sinnum. „Einar, Einar, Einar Ingi. Brottvísun á Lennon núna,“ segir aðstoðardómarinn. Atli Viðar Björnsson stendur ofan í atvikinu og trúir ekki eigin augum.

„Hann slær í áttina að mér og segir you're a fucking joke tvisvar,“ segir Birkir við Einar Inga sem byrjar á því að gefa Atla Viðari rautt en rekur svo Skotann út af.

FH-ingar héldu svo áfram að láta Birki heyra það en dómnum var ekki breytt og verður Lennon því í banni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×