Íslenski boltinn

Kristján Guðmunds orðaður við Stjörnuna: „Af hverju ekki?“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV.
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV. vísir/bára
Lesa mátti milli línanna í viðtali Kristjáns Guðmundssonar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að hann yrði næsti þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar.

Kristján hætti þjálfun karlaliðs ÍBV á dögunum eftir að hafa skilað liðinu í sjötta sæti Pepsideildarinnar og náð í bikarmeistaratitil á síðasta ári.

Arnar Björnsson ræddi við Kristján í dag og spurði hann út í orðróm um að hann gæti tekið við kvennaliði Stjörnunnar.

„Ég hef auðvitað velt öllu fyrir mér. Þarna ertu að tala um mjög sterkt félag með mikinn metnað þar sem hlutirnir eru gerðir á metnaðarfullan og djarfan hátt. Afhverju ekki?“

Arnar spurði Kristján þá hreint út hvort þessi orð þýddu ekki að hann væri á leiðinni í Stjörnuna.

„Ég bý í Garðabænum svo ég myndi þurfa að labba í vinnuna, sem er bara fínt því ég hef gengið í vinnuna síðustu tvö ár í Eyjum. Það er spurning hvort það verði framhald á,“ svaraði Kristján.

Allt viðtalið má sjá hér að neðan þar sem hann ræðir meðal annars ástæður þess að hann hætti með ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×