Íslenski boltinn

Óvissa ríkir um gervigrasið í Víkinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Grasið átti að vera farið í Víkinni.
Grasið átti að vera farið í Víkinni. vísir/eyþór
Óvissa ríkir um hvort Víkingur spili á nýjum gervigrasvelli í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð eins og til stóð. Samkvæmt samkomulagi við Reykjavíkurborg átti að hefjast handa við að leggja gervigras á keppnisvöllinn í Víkinni að lokinni síðustu umferð en framkvæmdir eru ekki farnar af stað.

Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, segir í samtali við íþróttadeild að samkvæmt nýrri óstaðfestri tímalínu sem félagið fékk frá Reykjavíkurborg á verki að ljúka 1. ágúst. Enn á eftir að fara með verkið í grenndarkynningu og þá á enn eftir að bjóða framkvæmdirnar út.

„Þegar að þetta var upphaflega rætt stóð jafnvel til að skipta á heimaleikjum við KR þannig að við myndum spila á útivelli í lokaumferðinni. Upphaflega átti að byrja á þessu strax eftir að deildin væri búin,“ segir Haraldur við Vísi.

„Víkin er okkar heimavöllur og hér spilum við okkar leiki. Við ætlum ekki að spila annars staðar langt fram eftir móti. Það kemur kannski til greina eða spila einn eða tvo leiki á hlutlausum velli í byrjun móts en ekki meira.“

Víkingar bíða nú eftir frekari upplýsingum frá Reykjavíkurborg. Þeir þurfa skýr svör um hvenær er hægt að byrja á verkinu svo mögulegt sé að vita hvenær því lýkur í síðasta lagi.

„Ef þetta dregst of langt held ég að við viljum ekki fara í þetta fyrr en næsta haust en eins og ég segi þá bíðum við bara eftir frekari svörum og staðfestri tímalínu,“ segir Haraldur Haraldsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×