Viðskipti innlent

Persónuvernd krefur Tekjur.is um svör

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Helga Þórisdóttir er forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir er forstjóri Persónuverndar. VÍSIR/VILHELM
Persónuvernd athugar nú birtingu félagsins Viskubrunns ehf. á skattskrárupplýsingum ársins 2016 á vefsíðunni Tekjur.is. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Persónuvernd.

Í tilkynningunni segir að í aðdraganda birtingu upplýsinganna hafi fjöldi einstaklinga sett sig í samband við stofnunina, þar sem þeir töldu brotið gegn persónuverndarlöggjöf með birtingu upplýsinganna. Þá hafi Persónuvernd sent lögmanni Viskubrunns bréf um athugun stofnunarinnar á félaginu.

Í bréfinu er Viskubrunni gerð grein fyrir því að Persónuvernd hafi ákveðið að hefja athugun á því hvort vinnsla upplýsinga um tekjur einstaklinga samrýmist persónuverndarlögum og hvort tilefni sé til beitinga valdheimilda stofnunarinnar, svo sem takmörkunar eða banns við vinnslu tímabundið eða til frambúðar.

Þá óskar Persónuvernd meðal annars eftir svörum við því á hvaða heimild vinnsla persónuupplýsinga hjá Viskubrunni sé byggð, hvaðan umræddar upplýsingar séu fengnar og hvort ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að tryggja að vinnsla umræddra upplýsinga uppfylli kröfur laga.

Persónuvernd hefur óskað svara eigi síðar en 23. október.

Hér má lesa tilkynningu Persónuverndar í heild sinni.


Tengdar fréttir

Fengu skattskrár allra Íslendinga frá ríkisskattstjóra

Tekjur.is fengu eintak af skattskrá allra Íslendinga frá ríkisskattstjóra í sumar. Fengu þeir sem standa að baki síðunni skrárnar afhentar á pappír sem þeir færðu síðan yfir á rafrænt form.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×