Erlent

Makedónskir þingmenn greiða atkvæði um nýtt nafn á landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Zoran Zaev er forsætisráðherra Makedóníu.
Zoran Zaev er forsætisráðherra Makedóníu. Getty/Bloomberg
Makedónska þingið mun í dag greiða atkvæði um breytingu á stjórnarskrá sem felur í sér að Makedónía skipti um nafn og verði þekkt undir nafninu Lýðveldið Norður-Makedónía.

Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram um málið fyrir hálfum mánuði þar sem mikill meirihluti samþykkti breytinguna. Kosningaþátttakan var þó lítil og til að breytingin nái í gegn þarf aukinn meirihluti á þinginu, tveir þriðjuhlutar þingmanna, að greiða atkvæði með tillögunni.

Makedóníumenn og Grikkir hafa lengi deilt um nafnið á Makedóníu, en Grikkir segja Makedóníu vera hérað í norðurhluta Grikklands. Grikkir hafa beitt sér gegn aðild Makedóníu að bæði ESB og NATO vegna deilunnar um nafn landsins.

Hyggst boða til kosninga verði tillagan ekki samþykkt

Makedónski forsætisráðherrann Zoran Zaev hefur barist fyrir að Makedónía skipti um nafn til að hægt verði að bæta samskiptin við nágrannana í suðri.

Zaev hefur látið hafa eftir sér að hann muni boða til kosninga, verði tillagan ekki samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×