Þúsundir hondúrskra flóttamanna eru nú við landamæri Mexíkó og Gvatemala þar sem þeir freista þess að komast inn í Mexíkó og halda áfram för sinni frá Mið-Ameríku til Bandaríkjanna.
Í gærkvöldi höfðu um tvö þúsund manns safnast saman Mexíkómegin landamæranna en fjöldi þeirra sem freistuðu þess að komast inn í landið meira en tvöfaldaðist í nótt en áætlað er að um fimm þúsund manns hafi tekist það síðan í gærkvöldi.
Í morgun voru enn um fimmtán hundruð manns sem biðu þess að fá inngöngu í Mexíkó á löglegan máta, en þegar leið á daginn urðu margir flóttamannanna óþolinmóðir og brugðu á það ráð að synda, vaða eða sigla yfir Suchiate, sem er áin sem skilur að Gvatemala og Mexíkó.
Þeir sem kusu að fara fram hjá landamæraeftirliti Mexíkó gerðu það í augsýn landamæravarða en voru þó ekki handteknir við komuna til landsins. Mexíkóar á svæðinu mættu flóttafólkinu með lófataki og gjöfum á borð við mat og klæðnað.
„Enginn getur stöðvað okkur, aðeins Guð,“ hefur Guardian eftir Olivin Castello, hondúrskum manni á sextugsaldri, en hann er einn þeirra sem flýr nú glæpaöldu og fátækt Hondúras og vill freista þess að komast til Bandaríkjanna í von um betra líf.
„Við spörkuðum niður hurðinni og höldum áfram að ganga. Ég get gert þetta.“
Um fimm þúsund flóttamenn við landamæri Mexíkó

Tengdar fréttir

Hótar að kalla út herinn til að loka landamærum
Donald Trump sagði þetta á Twitter í kvöld eftir að fregnir bárust af rúmlega þrjú þúsund farandfólki á leið norður frá Suður-Ameríku.