Íslenski boltinn

Kaj Leo genginn í raðir Vals

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Færeyingurinn er farinn í Val.
Færeyingurinn er farinn í Val. vísir/eyþór
Kaj Leo í Bartalsstovu er genginn í raðir Vals í Pepsi-deild karla í fótbolta en hann kemur til Hlíðarendafélagsins frá ÍBV.

Frá þessu er greint á Facebook-síðu Valsmanna en færeyski vængmaðurinn skrifaði undir þriggja ára samning við Íslandsmeistara Vals.

Hann kom fyrst til lands til þess að spila með FH en gekk í raðir ÍBV fyrir sumarið 2017 þar sem að hann er búinn að spila undanfarin tvö sumur.

Kaj Leo á að baki fimm mörk í 47 leikjum í Pepsi-deild karla en hann skoraði tvö mörk í 22 leikjum á síðustu leiktíð. Hann hefur skorað öll mörkin sín í efstu deild fyrir ÍBV.

Færeyingurinn var aftur á móti stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar í sumar með níu stoðsendingar í 22 leikjum. Hann lagði upp einu marki meira en nú samherji hans, Kristinn Freyr Sigurðsson. Þá átti hann sjöttu flestu lykilsendingarnar (52) og kom flestum sendingum (261) inn í vítateig andstæðinganna.

Hann ætti að smellpessa inn í sókndjarft lið Vals sem er nú þegar búið að bæta við sig öðrum öflugum kantmanni í Birni Snæ Ingasyni sem kom til Vals frá Fjölni á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×