Eignarhaldsfélagið Glitnir HoldCo hefur farið fram á heimild til að áfrýja lögbannsmáli sínu gegn Stundinni til réttarins.
Stundin hefur áður lagt Glitni HoldCo bæði í Héraðsdómi Reykjavíkur sem og í Landsrétti. Stundin greinir frá þessu á vefsvæði sínu.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði lögbann á frekari fréttaflutning upp úr gögnum sem Stundin hafði undir höndum að beiðni Glitnis HoldCo, eignarhaldsfélags sem heldur utan um eignir sem tilheyrðu þrotabúi Glitnis, 13. október í fyrra.
Blaðið hafði þá fjallað ítarlega um viðskipti Bjarna Benediktssonar, sem á þeim tímapunkti var forsætisráðherra en gegnir nú starfi fjármálaráðherra. Lögbannið var sett á aðeins rúmum tveimur vikum fyrir Alþingiskosningar 28. október.
Í tilkynningu frá Glitni HoldCo á sínum tíma sagði að farið hefði verið fram á lögbannið þar sem fréttirnar byggðust á gífurlegu magni gagna sem innihéldu upplýsingar um fjárhagsmálefni þúsunda viðskiptavina bankans.Dómur í málinu féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 2. febrúar síðastliðinn og í Landsrétti 5. október.
Nú leitar Glitnir HoldCo til æðsta dómstigs, Hæstaréttar. Verði áfrýjunarbeiðni Glitnis hafnað er málinu endanlega lokið fyrir íslenskum dómstólum.

