Útflutningsfyrirtæki eru aðþrengd og svigrúm þeirra til launahækkana er nánast ekki neitt. Þetta sýnir könnun Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækjanna sem birt var í dag.
Spurt var um mat þeirra á svigrúmi til launahækkana á árinu 2019. Ferðaþjónustufyrirtæki töldu til að mynda að svigrúmið væri 1,2%, fyrirtæki í útflutningi vöru og þjónustu töldu það 1,7% en önnur fyrirtæki 2,1%. Meðalniðurstaðan var 1,9%.
„Ljóst er að það hefur harðnað verulega á dalnum í ferðaþjónustu en að jafnaði töldu 65% ferðaþjónustufyrirtækja ekkert svigrúm fyrir hendi til launahækkana á næsta ári,“ segir í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins.
Þá sé staðan svipuð í öðrum greinum en rúmlega helmingur útflutningsfyrirtækja taldi ekkert svigrúm til launahækkana og 36% annarra fyrirtækja var á sama máli. Þá töldu 43% forsvarsmanna ekkert svigrúm til launahækkana árið 2019.
Í tilkynningu segir að niðurstöðurnar komi ekki á óvart í ljósi launaþróunar á tímabili gildandi kjarasamninga, þ.e. frá upphafi árs 2015.
Könnunin var gerð meðal aðildarfyrirtækja SA dagana 22. -31. ágúst. Alls bárust 523 svör og var svarhlutfall 31%.

