Erlent

Trump í hart við aðmírál sem stýrði aðgerðinni gegn bin Laden

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci
Ummæli Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, þar sem hann gagnrýndi fyrverandi aðmírálinn William H. McRaven í viðtali í dag og gaf í skyn að hann hefði átt að vera fljótari að finna Osama bin Laden, hafa vakið mikil viðbrögð og hefur forsetinn enn einu sinni verið sakaður um vanvirðingu gagnvart hermönnum. McRaven hefur ítrekað gagnrýnt Trump og þá meðal annars í grein í Washington Post í sumar.

Meðal þess sem McRaven hefur gagnrýnt Trump fyrir er hegðun hans og skortur á leiðtogahæfileikum. Hann hefur sagt Trump hafa smánað Bandaríkin og valdið auknum deilum meðal þjóðarinnar. Þá sagði hann nýverið að það hvernig Trump ræddi um fjölmiðla væri gífurleg ógn við lýðræði Bandaríkjanna.



McRaven var yfir flokki sérsveitarmanna, svokallaðra Navy SEALS, sem felldu bin Laden í Pakistan árið 2011.

Trump var í viðtali við Fox sem birt var í dag og þar var hann spurður út í gagnrýni McRaven. Hann sagði að McRaven væri aðdáandi Hillary Clinton og hefði stutt Barack Obama. Þá gaf hann í skyn að hann hefði átt að finna bin Laden fyrr.

„Hefði það ekki verið indælt ef við hefðum náð Osama bin Laden mun fyrr, hefði það ekki verið indælt?“ sagði Trump.

Sérsveitarmennirnir og McRaven komu þó ekki að því að finna bin Laden. Það var hlutverk leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA.

Það er vert að taka fram að McRaven lýsti aldrei yfir stuðningi við Hillary Clinton og fjölmargir sem hafa komið honum til varnar segja hann sjaldan sem aldrei hafa tjáð sig opinberlega um stjórnmál.

Í yfirlýsingu til CNN segir McRaven að hann hafi ekki stutt Clinton né annan stjórnmálamann. Þá segist hann vera aðdáandi Barack Obama og George W. Bush. Hann hafi unnið fyrir þá báða. McRaven segir einnig að hann dái alla forseta sem haldi uppi heiðri embættisins og noti það til að sameina þjóðina á erfiðum tímum.

Hann segir enn fremur að hann standi við ummæli sín um að viðhorf Trump gagnvart fjölmiðlum sé ógn við lýðræðið.

„Þegar þú grefur undan rétti fólks til frjálsra fjölmiðla og málfrelsis, ertu að ógna stjórnarskránni og öllu því sem hún stendur fyrir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×