Skoðun

Tölvukunnátta

María Bjarnadóttir skrifar
Japanski ráðherrann sem ber ábyrgð á netöryggismálum notar ekki tölvur. Hann upplýsti um þetta á svipuðum tíma og hann tók þátt í þingumræðum um netöryggismál í kjarnorkuverum og það kom í ljós að hann var ekki alveg viss um hvað USB-kubbur væri. Það er í sjálfu sér ekki hræðilegt að vita ekki hvað USB-kubbur er. Við munum ekki alltaf hvað allar skammstafanir þýða. Þessi kjarnorkutenging gerði mig samt örlítið órólega. Kveikti líka nokkrar spurningar.

Hvernig er hægt að vera ráðherra í heimalandi Nintendo, Sony og Toshiba og nota ekki tölvu? Hvað með allan tölvupóstinn, innhólfið sem aldrei tæmist? Hvernig fylgist hann með fréttum? Les hann bara blaðið og ekkert annað? Eru engar myndir úr sumarfríinu á Instagram? Hvernig eiga kjósendur að tengja við hann sem einstakling nema að hafa aðgang að upplýsingum um hvernig sumarfrístýpa hann er? Hvernig er hægt að vera ráðherra netöryggismála og nota ekki tölvur? Er hægt að móta stefnu í málaflokki án þess að hafa raunverulegan skilning á grundvallaratriðum sem fjallað er um?

Stjórnmálin fást oft við stór og flókin álitaefni. Við ætlum stjórnmálamönnum stundum að vera sérfræðingar í öllu sem þau fást við, en það eru þau auðvitað ekki. Þess vegna fá þau til liðs við sig aðstoðarfólk, sérfræðinga, ráðgjafa. Stjórnmálamenn eiga ekki að þurfa að hafa migið í saltan sjó til þess að hafa trúverðuga sýn á kvótamál. Það er hægt að taka pólitíska umræðu um málefni fólks á flótta án þess að hafa þurft að búa í flóttamannabúðum. Það er hægt að hafa pólitíska sýn án þess að hafa reynt alla anga hennar persónulega. Það hlýtur samt að hjálpa að kunna á tölvu.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×