Íslenski boltinn

Framkvæmdastjóri ÍBV: Ekki rétt að Veloso sé í leikbanni í Portúgal

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Veloso eftir undirskriftina hjá ÍBV. Hann er 25 ára gamall og hefur leikið með öllum yngri landsliðum Portúgals.
Veloso eftir undirskriftina hjá ÍBV. Hann er 25 ára gamall og hefur leikið með öllum yngri landsliðum Portúgals. mynd/íbv
Gunný Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV, segir það vera rangt sem kom fram í gær að nýi markvörður karlaliðs félagsins, Rafael Veloso, sé í leikbanni í Portúgal.

Veloso var á meðal fjórtán leikmanna sem lá undir grun um að hafa hagrætt úrslitum leiks árið 2016. Allir fjórtán voru þá handteknir. Þá lék Veloso með Oriental.

Hann var vissulega settur í bann á sínum tíma en það mál er allt að baki núna og markvörðurinn laus allra mála.

„Við höfum fengið skjöl í hendurnar sem staðfesta að það er búið að hreinsa hann af öllum grun í þessu máli. Hann er ekki í neinu leikbanni. Ef menn brjóta af sér í Portúgal er vegabréfið tekið af þeim. Þá gæti hann hvorki spilað í Noregi eða hér,“ segir Gunný og bætir við að markvörðurinn hafi komið heiðarlega fram frá upphafi og strax bent á þetta mál sem hann lenti í.

„Hann hefur verið ótrúlega heiðarlegur með öll þessi mál. Pabbi þjálfarans okkar [Pedro Hipolito] var íþróttastjóri hjá Belenenses, þar sem hann spilaði, og gaf þessum strák góð meðmæli.“

Gunný segir miður að þessar fréttir hafi birst um Veloso í gær þar sem þær hafi verið rangar.

„Hipolito myndi aldrei vilja semja við leikmann sem hann teldi vera eitthvað vafasaman. Okkur fannst þetta vera léleg blaðamennska hjá fótbolti.net. Það var lítil heimildaöflun. Það hefði mátt hafa samband við okkur og fá réttu upplýsingarnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×