Innlent

Segir að bekkurinn yrði þunnskipaður á þingi ef þingmennirnir segðu af sér

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins. Fréttablaðið/Ernir
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, segir að það yrði þunnskipað á þingi ef þingmennirnir sex sem komu saman á barnum Klaustur fyrr í mánuðinum og ræddu á niðrandi hátt um kollega sína myndu segja af sér.

Hann kveðst sannfærður um að svona framkoma sé ekki einsdæmi en hann sé þó ekki að benda á það sem einhverja afsökun eða skýringu.

Fjórir þingmenn Miðflokksins, þau Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir komu saman á barnum Klaustur þann 20. nóvember síðastliðinn ásamt þeim Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni úr Flokki fólksins.

Þingmennirnir ræddu fjálglega um menn og málefni og töluðu á niðrandi máta um ýmsa þingmenn. Þingmenn Miðflokksins sendu frá sér yfirlýsingu í dag og báðust afsökunar að stíga fram og gera það.

„En að öðru leyti vil ég ekki tjá mig mikið um það nema að ég er feginn því að þau skyldu gera það, gangast upp í að þau hafi komið ósæmilega. Ég held að það sé aðalatriðið í þessu máli og það er næsta víst að svona framkoma er ekki eins og stefnuskrá flokksins, hún byggir ekki á kvenhatri eða einhverju slíku nema síður sé. En eins og ég segi, þau hafa gengið fram og gert þetta en svo verðum við bara að bíða og sjá hvað gerist fleira,“ segir Þorsteinn.

Ræddu málið á þingflokksfundi í dag

En finnst þér ekki að þingmenn sem tala svona um samstarfsmenn sína á þingi eigi hreinlega að segja af sér?

„Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort að það eigi að gerast. Ef að það yrði gert þá yrði þunnskipað á þingi er ég hræddur um.“

Af hverju? Heldurðu að meirihluti þingmanna leyfi sér að tala svona um samstarfsmenn sína?

„Ég er alveg sannfærður um það að þetta er ekki einsdæmi og ég bara veit það. Ég er ekki að segja að það sé til fyrirmyndar og ég er ekki að benda á það sem afsökun eða einhverja skýringu en eins og ég segi, þá held ég að þá yrði þunnskipaður bekknum.“

Þingflokkur Miðflokksins fundaði í dag og fór yfir málið að sögn Þorsteins. Aðspurður hvort að þar hafi verið rætt um að þingmennirnir á upptökunni segi af sér segir hann að þingmenn flokksins fari ekki yfir það opinberlega hvað fram fari á þingflokksfundum.

Þorsteinn segir að honum finnist það mjög alvarlegt að samtal þingmannanna hafi verið tekið upp.

 

„Það er hins vegar mál held ég sem við ræðum aðeins seinna. Nú erum við að ræða það sem þarna kom fram og menn eru að bregðast við því.“

Skipti máli hvort viðkomandi sé opinber persóna

Þá segir hann það skýlaust brot á persónuverndarlögum ef menn eru að taka upp á opinberum stöðum eitthvað sem þar fer fram.

Í því samhengi má benda á það sem Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, sagði í samtali við Vísi fyrr í dag um málið en þar benti hún  að almenna reglan sé að fólk eigi að vita hvort það sé í upptökum.

„Að sama skapi þá skiptir líka máli hvort upptakan sé á einkaheimili eða eitthvað er tekið upp á almannafæri. Ef fólk talar hátt um hluti sem fólk vill ekki að þoli dagsins ljós. Þá ber það ákveðna ábyrgð á því mögulega líka.“

Helga velti því jafnframt upp hvernig þingmönnum þætti við hæfi að tjá sig á almannafæri.

„Ef þeir tjá sig þannig að það þyki vera fréttaefni þá erum við komin í það sem er stjórnarskrárvarið líka, sem er tjáningarfrelsi.“

Þá skipti það máli hvort viðkomandi sé opinber persóna.

„Ef opinber persóna eins og þjóðkjörinn þingmaður talar á almannafæri þannig að aðrir heyra þá hafa fjölmiðlar mat um það hvað á erindi til almennings og hvað ekki. Það er fullt af breytum í þessu,“ sagði Helga.


Tengdar fréttir

Niðrandi ummæli Miðflokksmanna um Lilju Alfreðsdóttur

Gunnar Bragi Sveinsson kallaði hana helvítis tík. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir henni ekki treystandi. Bergþór Ólason segir enga konu hafa teymt sig eins lengi á asnaeyrum sem hann hefur ekki fengið að ríða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×