Sport

Magnaðir loftfimleikar hjá leikmanni Seattle Seahawks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Carson á flugi.
Chris Carson á flugi. Vísir/Getty
Chris Carson, hlaupari hjá Seattle Seahawks, átti örugglega tilþrif helgarinnar í NFL-deildinni en hann sýndi þá mögnuð fimleikatilþrif í einu hlaupa sinna upp völlinn.

Seattle Seahawks vann mikilvægan 30-27 sigur á Carolina Panthers á útivelli en bæði lið þurfa á hverjum sigri að halda í baráttunni fyrir sæti í úrslitakeppninni.

Sebastian Janikowski tryggði Seattle sigurinn með því að skora vallarmark um leið og tíminn rann út. Skömmu áður hafði sparkari Carolina Panthers klikkað á því að koma sínu liði þremur stigum yfir.

En aftur að tilþrifum Chris Carson. Það var ekki nóg með að hann spilar stöðu þar sem menn verða að sameina sprengikraft, hraða og styrk til að komast áfram upp völlinn þá sýndi þessi karftmikli leikmaður mikinn liðleika og stjórn á líkamanum.

Chris Carson ætlaði að hoppa yfir einn varnarmann Carolina Panthers en sá hinn sami snéri honum í loftinu. Flestir hefðu búist við því að þá biði Carson slæmur skellur á jörðinni en aldeilis ekki.

Chris Carson snérist í heilan hring en lenti aftur á fótunum og hélt för sinni áfram. Hann hélt líka á boltanum allan tímann. Það má sjá þessa mögnuðu loftfimleika hér fyrir neðan.

Chris Carson var spurður út í þetta eftir leik. Hann svaraði: „Ég veit bara ekkert hvað ég var að hugsa þarna.“







NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×