Harpa Njáls, félagsfræðingur, er þekkt fyrir rannsóknir sínar á fátækt og aðstæðum launafólks á Íslandi en hún hélt erindi á fundi á vegum Eflingar í dag. Dæmi um konur í láglaunastörfum eru ófaglærðar konur sem starfa við uppeldi og menntun barna, til að mynda á leikskólum eða umönnunarstörf, til að mynda á hjúkrunarheimilum. Hún segir þessar konur vinna vanmetnustu störf samfélagsins.

„Við erum ekki að tala um að þetta séu hópar fólks sem eru að vinna hjá litlum fyrirtækjum sem berjast í bökkum til að reka sig. Við erum að tala um, þetta er fólk sem vinnur hjá ríki og sveitarfélögum. Þannig að þeim er í lofa lagið að semja um og greiða mannsæmandi kjör.“
Þá segir Harpa að konur af erlendum uppruna standi mjög illa. Þær leggi mikið til samfélagsins með vinnu sinni en þeim sé mismunað í velferðarkerfinu. Ástandið í dag sé mjög slæmt.
„Það er staðreynd að konur ná ekki endum saman. Þær lifa ekki mannsæmandi lífi. Þær byrja á því að greiða húsaleiguna, rafmagn og hita til að hafa það á hreinu þar sem þær búa. Síðan borðar fólk fyrir restina,“ segir Harpa og bætir við að þær geti ekki leyft sér neitt annað.