Skoðun

Meistaraverk

Óttar Guðmundsson skrifar
Jólabókavertíðin er hafin og forlögin kynna af miklu kappi nýjar bækur. Samkeppnin er hörð enda fer bóksala og áhugi á bókum hratt minnkandi. Tölvuleikir og netsamskipti hafa náð yfirhöndinni. Bókin er á hröðu undanhaldi eins og sjá má út um allt samfélagið. Fyrir einhverjum árum sátu allir flugfarþegar með bók en núna eru flestir með tölvuskjá og horfa á skemmtiefni. Á biðstofum lækna og opinberra stofnana rýna menn í símann sinn en láta blöð og bækur afskiptalaus. Fæstir nenna að lesa langa doðranta og fólk velur hraða viðburðarás kvikmyndaheimsins. Bóklæsi víkur fyrir myndlæsi. Bókaútgefendur eiga heiður skilinn fyrir elju sína og þvermóðsku.

Miklu skiptir að auglýsa bækur við þessar erfiðu kringumstæður. Það er venjulega gert með tilvitnunum í gagnrýnendur eða valinkunna gáfumenn sem tjá sig á netinu. Það vekur athygli og ánægju að allar bækur sem eru til umfjöllunar eru meistaraverk. Fjölmiðlar nota stjörnugjöf til að raða bókum í flokka og stærstur hlutinn fær fullt hús stiga, 4-5 stjörnur. Þegar bókmenntarýni samtímans er lesin mætti halda að þjóðin ætti sér nýjan Laxness, Hemingway eða jafnvel Shakespeare í hverri hillu. Einungis hástemmd lýsingarorð ná utan um alla þessa nýútkomnu snilld. Gagnrýnendur fyllast sæluhrolli við lesturinn og höfundar sigla með himinskautum í allri umfjöllun.

„Íslands óhamingju verður allt að vopni,“ var einu sinni sagt. Það er sorglegt að bókin skuli vera deyjandi fyrirbæri einmitt þegar íslenskir höfundar hafa náð þessum bókmenntalegu hæðum. Þegar allt benti til þess að þeir væru að sigra heiminn með snilld sinni, gaf bókin upp öndina og framhaldsþættir á Netflix tóku við. Þetta heitir á vondu máli að toppa á kolvitlausum tíma.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×