Innlent

Þekkir ekki manninn á upptökunum og ítrekar afsökunarbeiðni

Kjartan Kjartansson skrifar
Forsíðuvísun á umfjöllun upp úr upptökunum á vefsíðu Stundarinnar nú í kvöld. Ummæli sem Bergþór hafði um Ingu Sæland þóttu sérstaklega gróf.
Forsíðuvísun á umfjöllun upp úr upptökunum á vefsíðu Stundarinnar nú í kvöld. Ummæli sem Bergþór hafði um Ingu Sæland þóttu sérstaklega gróf. Skjáskot
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sem hafði sig hvað mest frammi á Klaustursupptökunum svonefndu ítrekar afsökunarbeiðni til fólks sem hann særði með ummælum sínum í yfirlýsingu þar sem hann tilkynnir um að hann ætli að taka sér leyfi frá þingstörfum. Hann segist ekki þekkja manninn sem heyrist á upptökunni.

Fjölmiðlar hafa unnið fréttir upp úr upptökum af samtali sex þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á barnum Klaustri þar sem þeir ræddu á óviðeigandi hátt um aðra þingmenn, sérstaklega konur. Eftir Bergþóri hafa verið höfð ummæli sem þykja sérstaklega ósæmileg í garð Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, og fleiri stjórnmálakvenna.

Tilkynnt var í dag að hann og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, sem hafði einnig uppi ófögur orð um stjórnmálakonur tækju sér leyfi frá þingstörfum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni að leyfi þeirra yrði launalaust.

Í yfirlýsingu sem Bergþór sendi frá sér til að tilkynna um leyfið segist hann hafa viðhaft meiðandi ummæli um einstaklinga sem höfðu sér ekkert til saka unnið. Hann hafi ákveðið að taka sér leyfi vegna þess.

„Þegar maður finnur sig í þeirri stöðu að þekkja ekki þann mann sem hljómar á upptökum, talsmátinn er manni framandi og framgangan þannig að maður skammast sín, verður maður að líta í spegil og taka sjálfan sig til gagnrýn[in]nar skoðunar. Það ætla ég að gera,“ segir í yfirlýsingu Bergþórs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×