Sport

Hljóp yfir Jagúarana og inn í metabók NFL-deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Derrick Henry var í rosalegu stuði í nótt.
Derrick Henry var í rosalegu stuði í nótt. Vísir/Getty
Eftir frekar misjafna og oftar en ekki dapra frammistöðu allt þetta tímabil þá átti Derrick Henry ótrúlegan leik með Tennessee Titans í NFL-deildinni í nótt.

Tennessee Titans liðið vann þá 30-9 sigur á Jacksonville Jaguars og hélt draumum sínum um sæti í úrslitakeppninni á lífi. Þetta var aftur á móti áttunda tap Jagúarana í síðustu níu leikjum en leikur liðsins hefur gjörsamlega hrunið eftir 30. september.





Það er óhætt að segja að Derrick Henry sem Títani hafi staðið undir nafni með risavaxni frammistöðu sinni í nótt. Derrick Henry hljóp alls 238 jarda og skoraði á endanum fjögur snertimörk hjá varnarmönnum Jacksonville Jaguars.

 

Í einu snertimarka sinna þá hljóp Derrick Henry heila 99 jarda með boltann þar sem nokkrir varnarmenn Jagúarana hrukku hreinlega af honum. Þetta er metjöfnun því aldrei hefur leikmaður hlaupið lengra með boltann áður en hann skoraði snertimark.

Henry jafnaði þarna 35 ára met Tony Dorsett sem skoraði einnig 99 jarda snertimark fyrir Dallas Cowboys á móti Minnesota 3. janúar 1983.





„Þegar ég komst á fulla ferð í þessu 99 jarda hlaupi þá ætlaði ég ekki að láta neinn stoppa mig,“ sagði Derrick Henry sem notaði lausu hendi sína löglega til að bægja aðvífandi varnarmönnum frá.

Henry setti líka nýtt félagsmet með þessum 238 hlaupajördum en gamla metið var 228 jardar og frá 2009. Hann jafnaði líka félagsmetið yfir flest snertimörk á jörðinni.

Jacksonville kom inn í leikinn í fimmta sæti yfir bestu varnar deildarinnar þegar litið er á stigaskor mótherja. Liðið fékk ekki á sig eitt stig á móti Andrew Luck og félögum í Indianapolis Colts í leiknum á undan.

Derrick Henry nýtti sér veiklega varnarinnar til fullnustu og hljóp inn í metabækurnar. Hann fékk eitt tækifæri til viðbótar til að skora fimmta snertimarkið en þá tókst varnarmönnum Jaguars-liðsins að stoppa hann. Kannski kominn tími til.

„Þetta verður einn af hápunktunum hjá honum svo lengi sem hann lifir,“ sagði Calais Campbell, varnarmaður í liði Jaguars.











NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×