Fréttablaðið greinir frá því í morgun að Íslandspóstur hyggist endurgreiða lánið með greiðslu úr svokölluðum jöfnunarsjóði alþjónustu, sjóði sem er tómur.

Ævintýramennska í samkeppnisrekstri
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, telur skilyrði fyrir neyðarláninu til Póstsins vera veik. Hann gagnrýnir að ekkert sé farið ofan í það hver beri ábyrgð á stöðunni sem nú er uppi hjá fyrirtækinu.„Það sem við höfum haldið fram hjá Félagi atvinnurekenda lengi er að stór hluti af vanda Íslandspósts sé kominn til vegna ævintýramennsku í samkeppnisrekstri. Nýjasta dæmið er af ePósti þar sem Pósturinn þráast við að reikna vexti á lán móðurfélagsins til dótturfélags til þess að láta það líta aðeins betur út. Við teljum að það sé þörf á og hefði átt að vera skilyrði af hálfu þingsins að það yrði gerð óháð úttekt á Íslandspósti og sérstaklega þessum samkeppnisrekstri og fjármunum almennings sem hafa tapast þar.“
Hærra umsýslugjald erlendra sendinga
Á dögunum fjallaði fréttastofa um mikinn kostnað Íslandspósts vegna erlendra póstsendinga þar sem neytendur greiða einungis þriðjung sendingarkostnaðar frá Kína vegna alþjóðasamninga.Ólafur bendir í því samhengi á að Pósturinn ætti að rukka hærra umsýslugjald af notendum þeirrar þjónustu „í stað þess að senda skattborgurum reikninginn.“