Sport

Hall­dór Helga­son til­nefndur sem snjó­bretta­maður ársins

Tinni Sveinsson skrifar
Halldór tryggir stað sinn sem einn virtasti og vinsælasti snjóbrettamaður í heiminum.
Halldór tryggir stað sinn sem einn virtasti og vinsælasti snjóbrettamaður í heiminum. The Future of Yesterday
Akureyrski snjóbrettamaðurinn Halldór Helgason átti enn og aftur frábært ár í snjóbrettaíþróttinni og heldur sér í fámennum hópi bestu brettamanna heims.

Í gær var það tilkynnt að hann er tilnefndur af vinsælasta og virtasta tímariti snjóbrettabransans, Transworld Snowboarding, bæði sem snjóbrettamaður ársins og fyrir besta atriði ársins í snjóbrettamynd. Verðlaunin eru valin af 100 fremstu snjóbrettamönnum heims en Halldór er einnig tilnefndur sem uppáhalds brettamaður lesenda Transworld.

Atriðið sem hann er tilnefndur fyrir í ár er í myndinni The Future of Yesterday, sem kom út fyrr í haust. Þar má sjá Halldór framkvæma hreint ótrúleg stökk, meðal annars fram af himinháum klettum undir lok myndar. The Future of Yesterday er einnig tilnefnd sem snjóbrettamynd ársins, enda er hún ein sú metnaðarfyllsta á árinu, en bróðir Halldórs, Eiki Helgason, á einnig atriði í henni.

Þetta er annað árið í röð sem Halldór er áberandi á tilnefningalista Transworld sem er eftirsóttur í snjóbrettabransanum, en í fyrra vann hann bæði verðlaun fyrir atriði ársins og sem uppáhalds snjóbrettamaður lesenda. Halldór var einnig valinn uppáhalds snjóbrettamaður ársins af lesendum Transworld árið 2015 og árið 2011 var hann valinn nýliði ársins. Þá var hann einnig valinn besti evrópski snjóbrettamaðurinn af tímaritinu Onboard í fyrra.

Þeir sem keppa við Halldór um titilinn brettamaður ársins eru Norðmaðurinn Torstein Horgmo, Japaninn Kazu Kokubo og Bandaríkjamennirnir Eric Jackson og Austin Sweetin. Á vef Transworld Snowboarding er hægt að horfa á fleiri atriði sem sköruðu fram úr á árinu og kynna sér tilnefningar í öllum flokkum.

Halldór lætur sig flakka í heljarstökk niður himinháa kletta undir lok myndarinnar.The Future of Yesterday

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×