Hópur skoskra þingmanna hafði beðið dómstólinn um álit um hvort að Bretlandsstjórn gæti hætt við útgönguna án samþykkis annarra aðildarríkja ESB.
Álit lögsögumannsins Manuel Campos Sanchez-Bordona er ekki bindandi og verður endanlegur úrskurður dómstólsins ekki kynntur fyrr en síðar. Dómstóllinn á það þó til að fara eftir áliti lögsögumanns í yfirgnæfandi fjölda þeirra mála sem koma til kasta hans.
Fimm daga umræður
Evrópuþingmaðurinn Alyn Smith, sem tilheyrir Skoska þjóðarflokknum (SNP), segir álitið sýna fram á að Bretar hafi nú „vegvísi til að komast út úr Brexit-óreiðunni“.Umræður um Brexit-samning stjórnar Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, og Evrópusambandsins hefjast í breska þinginu í dag og er áætlað að fimm dagar verði lagðir undir umræðurnar.
Stendur til að þingið kjósi svo um samninginn á þriðjudaginn í næstu viku.
Geta hætt við á tveggja ára tímabilinu
Í áliti lögsögumannsins segir að ef ríki ákveði að ganga úr sambandinu, ætti það einnig að hafa vald til að skipta um skoðun á því tveggja ára tímabili sem tiltekið er í 50. grein Lissabonsáttmálans og ætlað er til viðræðna milli viðkomandi aðildarríkis og fulltrúa Evrópusambandsins um hvernig útgöngu skuli háttað.Ætti aðildarríkið að geta hætt við útgönguna á því tímabili án samþykkis annarra aðildarríkja. Bretar munu að óbreyttu ganga úr ESB þann 29. mars næstkomandi.