Sport

Meistara-Ernirnir eru enn á lífi í NFL-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carson Wentz leiddi sína menn í Philadelphia Eagles til mikilvægs sigurs í nótt.
Carson Wentz leiddi sína menn í Philadelphia Eagles til mikilvægs sigurs í nótt. Vísir/Getty
NFL-meistarar Philadelphia Eagles unnu nauðsynlegan sigur í mánudagsleik ameríska fótboltans í nótt og eiga því enn möguleika á að komast í úrslitakeppnina þrátt fyrir skelfingarbyrjun á tímabilinu.

Philadelphia Eagles vann 28-13 heimasigur á meiðslahrjáðu liði Washington Redskins en þetta var annar sigur meistaranna í röð og sá sjötti á tímabilinu. Þetta er samt í fyrsta sinn í þessari titilvörn sem Ernirnir vinna tvo leiki í röð.

Philadelphia Eagles komst fyrir vikið upp fyrir Washington Redskins í Austurriðli Þjóðardeildarinnar. Dallas Cowboys er á toppi hans með einum sigurleik meira en Eagles. Það stefnir í mjög harða baráttu og liðin mætast einmitt í næsta leik.





Carson Wentz, leikstjórnandi Philadelphia Eagles, átti tvær snertimarkssendingar í leiknum á útherjana Jordan Matthews og Golden Tate auk þess að hlauparinn Darren Sproles skoraði líka eitt snertimark í leiknum.

Alex Smith, aðalleikstjórnandi Washington Redskins, fótbrotnaði illa á dögunum og snemma í nótt fótbrotnaði varamaður hans, Colt McCoy, líka. Óheppnin eltir því Redskins liðið í vetur en þetta var þriðja tap liðsins í röð. Það var því undir Mark Sanchez komið að leiða sóknarleik liðsins en hann er nýkominn til félagsins.





Hlauparinn Adrian Peterson náði að skora 90 jarda snertimark fyrir Washington í upphafi leiks þegar hann kom Redskins í 10-7 en Darren Sproles svaraði með snertimarki í öðrum leikhluta og Carson Wentz landaði síðan sigri fyrir sína menn með snertimarkssendingum í þeim síðari.





Umrætt snertimark hlauparans Darren Sproles var langþráð en þetta var hans fyrsta síðan 22. desember 2016. Sproles spilaði aðeins þrjá leiki á síðasta tímabili en hann bæði sleit krossband og handleggsbrotnaði þá í sömu sókninni. Tognun aftan í læri hélt Sproles frá fyrstu tólf leikjunum á þessu tímabili en hann snéri aftur í nótt og lét til sína taka í mikilvægum sigri.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×