Erlent

Dæmdur til að horfa ítrekað á Disney-kvikmynd eftir að upp komst um veiðiþjófnað

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Berry (t.v.) var dæmdur til þess að horfa oft á kvikmyndina Bamba. Myndin fjallar um dádýr, ekki ósvipað dýrinu til hægri.
Berry (t.v.) var dæmdur til þess að horfa oft á kvikmyndina Bamba. Myndin fjallar um dádýr, ekki ósvipað dýrinu til hægri. LCPD/Getty
Bandarískur maður hefur verið dæmdur til þess að horfa ítrekað á Disney-teiknimyndina Bamba, eftir að hann var sakfelldur fyrir stórfelldan veiðiþjófnað í Missouri-ríki í Bandaríkjunum.

Veiðiþjófurinn, sem heitir David Berry Jr., var handtekinn í ágúst, ásamt föður sínum og bróður, fyrir að skjóta fjölda dádýra, skera af þeim höfuðin og skilja líkamsleifar þeirra eftir í skóginum þar sem þau rotnuðu.

Málið er eitt stærsta veiðiþjófnaðarmál sem komið hefur upp í Missouri en samkvæmt embættismanni í ríkinu er fjöldi þeirra dádýra sem Berry drap ekki ljós en gæti verið allt að „nokkur hundruð.“

Dómarinn Robert George dæmdi Berry í eins árs fangelsi. Í dómsuppkvaðningunni kom fram að veiðiþjófurinn skyldi „horfa á Walt Disney-myndina Bamba, og fyrsta áhorf skyldi fara fram á eða fyrir 23. desember og einu sinni í mánuði eftir það.“

Kvikmyndin er löngu orðin sígild í hugum teiknimyndaaðdáenda en hún kom út árið 1942 og segir frá ungu dádýri, nefnilega Bamba, hvers móðir fellur fyrir hendi veiðimanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×