„Hvort sem nógu margir skrifa undir eða ekki þá höfum við alltaf sagt að við viljum leita álits íbúa með framtíðina í Helguvík og það hefur ekkert breyst hjá okkur þannig að, já, ég held að kosning fari fram.“
Hátt í þrjú þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til bæjarstjórnar Reykjanesbæjar um að efna til bindandi íbúakosningar um framtíð stóriðju í Helguvík.
Rafræna undirskriftalistanum var lokað á miðnætti en skriflegum undirskriftum verður safnað til áramóta. Bæjaryfirvöldum er skylt að bregðast við þegar 20% íbúa eða fleiri óska eftir íbúakosningu. Íbúar á kosningaaldri í Reykjanesbæ eru um 13.500 og alls þarf því 2.700 undirskriftir. Samtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík standa að söfnuninni.
Friðjón sagði þá einnig að Stakksberg, eigandi kísilverksmiðjunnar, þurfi að líta í eigin barm. Hann telur bæjarfélagið ekki vera skaðabótaskylt ákveði íbúar að hafna starfsemi kísilverksmiðjunnar í atkvæðagreiðslu.
Stakksberg tók við rekstri kísilverksmiðjunnar þegar United Silicon varð gjaldþrota. Stakksberg er í eigu Arion banka.