Erlent

Sagður hafa gortað sig af því að hafa sofið hjá Jennifer Lawrence

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lawrence og Weinstein þegar allt lék í lyndi.
Lawrence og Weinstein þegar allt lék í lyndi. Michel Dufour/Getty

Harvey Weinstein, bandaríski kvikmyndaframleiðandinn sem sakaður hefur verið um kynferðislegt ofbeldi af fjölda kvenna, er sagður hafa stært sig af því að hafa sofið hjá óskarsverðlaunaleikkonunni Jennifer Lawrence.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í dómsskjali í máli sem höfðað hefur verið gegn Weinstein. Þar er Weinstein gefið að sök að hafa ýtt leikkonu, hverrar nafn kemur ekki fram í dómsskjölunum, niður í jörðina og þröngvað sér í kjölfarið upp á hana.

Þegar leikkonan hafi hafnað umleitunum Weinstein um samfarir hafi hann reiðst og látið ummælin um meint samræði sitt við Lawrence falla.

„Viltu yfirhöfuð vera leikkona? Ég svaf hjá Jennifer Lawrence og sjáðu hana í dag; hún var að vinna Óskarsverðlaun.“

Lawrence tjáði sig um málið í yfirlýsingu sem hún gaf frá sér í gær. Þar neitaði leikkonan því alfarið að hafa nokkurn tíma haft samfarir við Weinstein.

„Ég finn til með öllum þeim konum sem Harvey Weinstein herjaði á. Ég hef aldrei átt annað en faglegt samband við hann. Þetta er enn eitt dæmið um þá ofbeldismannahegðun og lygar sem hann hefur sýnt af sér til þess að egna konur,“ er meðal þess sem segir í tilkynningunni.

Í frásögn leikkonunnar kemur meðal annars fram fram að Weinstein hafi átt munnmök við konuna gegn hennar vilja, en framleiðandinn hefur statt og stöðugt neitað öllum ásökunum um nauðganir og aðrar kynferðislegar athafnir gegn vilja þeirra sem hafa sakað hann um slíkt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×