Reykhólahreppur birti í gær niðurstöður nýrrar greiningar þar sem stórbrú yfir mynni Þorskafjarðar er sögð vænlegri kostur en vegur um Teigsskóg. Vegagerðin hafnaði þeirri niðurstöðu þegar í gærkvöldi og ítrekaði það mat að Þ-H leiðin um Teigsskóg kæmi best út við samanburð á öryggi, greiðfærni, styttingu leiða og hagkvæmni.

„Samgönguáætlun eins og hún liggur fyrir gerir ráð fyrir Þ-H leið inni, sem Vegagerðin hefur valið sem vænlegasta kostinn. Það er fullfjármagnað í áætluninni og reiknað með að hefja framkvæmdir á næsta ári. Við höldum okkur við þá áætlun,“ segir Jón Gunnarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar.
„Það er augljóst að ef að ákvarðanir verða teknar um að fara einhverja aðra leið að þá er mikil undirbúningsvinna eftir. Allt umhverfismat og allir þeir ferlar sem slíkt mat þarf að fara í gegnum. Þannig að við værum þá að horfa fram á einhverra ára töf í því máli,“ segir Jón.

Deilt er um kostnaðarmun á leiðunum. En er svigrúm til að bæta við fjármunum sem á vantar, ef þessa nýja leið yrði valin?
„Það er ekki reiknað með því í áætluninni, eins og hún er. Og ef að leið, sem yrði valin, væri mun dýrari, þá yrði að endurskoða allan fjármögnunargrundvöll.“
-Gæti það hugsanlega frestað þessu verkefni um mörg ár?
„Ja, bara ferillinn að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum, og þeim kæruleiðum og öllu sem er í kringum það, það er auðvitað bara reynsla okkar að það getur tafið framkvæmdir í mörg ár. Það sannast best á einmitt Gufudalssveitinni þar sem málið er búið að vera strand núna í kannski uppundir tíu ár, - einmitt vegna þess,“ svarar Jón Gunnarsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.