Erlent

Erdogan hyggur á frekari árásir á Kúrda

Samúel Karl Ólason skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AP/Forsetaembætti Tyrklands
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir að sveitir sínar muni ráðast gegn sýrlenskum Kúrdum (YPG) á næstu dögum. Vísbendingar eru um að Tyrkir hafi verið að færa hergögn og menn að landamærum sýrlenskra Kúrda sem starfa undir regnhlífarsamtökum Syrian Democratic Forces og með stuðningi Bandaríkjanna.

Tyrkir líta á YPG sem hryðjuverkasamtök og systursamtök Verkamannaflokks Kúrda (PKK) sem háða hafa áratuga langa frelsisbaráttu í Tyrklandi. Bandaríkin og Tyrkland eru bandamenn í NATO og stuðningur Bandaríkjanna við SDF gegn Íslamska ríkinu hefur lengi verið horn í síðu yfirvalda í Ankara.

Þá óttast Tyrkir að velgengni sýrlenskra Kúrda og hugsanlegt sjálfstæði þeirra myndi leiða til aukinna átaka innan Tyrklands.

Erdogan sagði í sjónvarpsávarpi í gær að árásir á Kúrda væru yfirvofandi og að Tyrkir myndu gera árásir austur fyrir Efrat á næstu dögum. Hann tók fram að ekki stæði til að gera árásir á bandaríska hermenn sem eru á yfirráðasvæði SDF.

Ef af verður yrði um þriðju innrás Tyrkja í Sýrland að ræða. Fyrst gerðu þeir innrás í norðurhluta landsins, vestur af Efrat, til að koma í veg fyrir að Kúrdar næðu að tengja yfirráðasvæði sitt við Afrin-hérað. Seinna meir gerðu þeir einnig innrás í Afrin og ráku Kúrda þaðan og fluttu uppreisnarmenn og vígamenn sem þeir hafa stutt inn í héraðið.

YPG stundar þó skæðan skæruhernað í héraðinu þeir hópar sem Tyrkir styðja á svæðinu hafa einnig deilt sín á milli.

Sérstakt deiluatriði er borgin Manbij, sem Tyrkir vilja að Kúrdar yfirgefi. Hún er á vestan megin við Efrat. Bandarískir hermenn hafa þó komið fyrir eftirlitsstöðvum við landamæri Tyrkja og Kúrda og hafa einnig komið hermönnum fyrir í Manbij. Guardian segir um tvö þúsund bandaríska hermenn vera í og við Manbij. Þá eru Bandaríkin með herstöð austur af borginni.



Bandarískum herþyrlum er einnig flogið um svæðið og undanfarna daga hefur komið til smávægilegra bardaga á milli bandamanna SDF, sem stjórna Manbij, og uppreisnar- og vígahópa sem Tyrkir styðja.

Í ávarpi sínu í gær kvartaði Erogan yfir óheiðarleika Bandaríkjanna og sagði að Tyrkjum hefði verið lofað að Kúrdar færu frá Manbij. Það hefði ekki gerst og því myndu Tyrkir færa þá.

Talsmaður hernaðaryfirvalda Bandaríkjanna sagði Guardian að einhliða hernaðaraðgerðir Tyrkja í norðausturhluta Sýrlands, þar sem bandarískir hermenn eru staðsettir, væru óásættanlegar.

Erdogan hefur lengi hótað því að senda hermenn gegn sýrlenskum Kúrdum í norðausturhluta Sýrlands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×