Fótbolti

María og stöllur í erfiðum riðli með Frakklandi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Miðvörðurinn María Þórisdóttir, hér fyrir miðju ásamt liðsfélögum sínum í norska landsliðinu fyrir æfingarleik gegn Svíþjóð.
Miðvörðurinn María Þórisdóttir, hér fyrir miðju ásamt liðsfélögum sínum í norska landsliðinu fyrir æfingarleik gegn Svíþjóð. fréttablaðið/getty
Dregið var í riðlakeppnina fyrir Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í kvennaflokki um helgina en alls senda 24 lönd lið til leiks. Noregur með Selfyssinginn Maríu Þórisdóttur, dóttur Þóris Hergeirssonar, innanborðs fékk erfiðan riðil með heimaþjóðinni Frakklandi.

Íslenska kvennalandsliðið missti af tækifæri að komast inn á lokakeppni HM í haust í fyrsta sinn þegar þær horfðu á eftir efsta sætinu til Þýskalands og rétt misstu af umspilssæti í lokaumferðinni.

Norska landsliðið með Maríu innanborðs lenti í riðli með heimaþjóðinni Frakklandi sem er í 3. sæti á styrkleikalista FIFA, Suður-Kóreu sem er einu sæti fyrir neðan Noreg á listanum og Nígeríu sem vann nýlega Afríkukeppnina.

Bandaríska landsliðið þykir sigurstranglegt, hefur enda leikið til úrslita í síðustu tvö skipti og er sigursælasta liðið í sögu keppninnar með þrjá titla. Bandaríkin eru með Svíþjóð í riðli, sem sló út bandaríska liðið á Ólympíuleikunum 2016, ásamt Taílandi og Síle sem eru óþekktari númer.

Ríkjandi Evrópumeistararnir í Hollandi voru nokkuð heppnar með riðil eftir að hafa þurft á umspili að halda til að öðlast þátttökurétt í Frakklandi næsta sumar. Holland er með Kanada í riðli sem er eitt af sterkari liðum heims en Nýja-Sjáland hefur ekki leikið vel að undanförnu og Kamerún hefur aðeins einu sinni áður tekið þátt í lokakeppni HM. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×