Erlent

Ekki sér fyrir endann á lokun ríkisstofnana í Bandaríkjunum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Afar sjaldgæfur laugardagsþingfundur fór fram í þinghúsi Bandaríkjanna í Washington í dag.
Afar sjaldgæfur laugardagsþingfundur fór fram í þinghúsi Bandaríkjanna í Washington í dag.
Lokun hluta ríkisstofnana Bandaríkjanna mun að öllum líkindum vara fram yfir jól. Þetta varð ljóst eftir að öldungadeild Bandaríkjaþings kom saman og náði ekki samkomulagi um fjármögnun múrs sem Donald Trump Bandaríkjaforseti vill að rísi á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.

Eftir árangurslausar tilraunir þingmanna til þess að komast að niðurstöðu í gærkvöldi fundaði þingið aftur í dag af illri nauðsyn, en afar sjaldgæft er að þingið komi saman á laugardögum. Staðan sem nú er uppi þótti hins vegar nægilega alvarleg til þess.

Því er ljóst að lokun ríkisstofnana á borð við heimavarnarráðuneytið og stofnanir sem lúta að samgöngumálum, landbúnaði, utanríkismálum, auk alls dómskerfisins munu þurfa að bíða með að hefja starfsemi að nýju. Engar fyrirætlanir eru um að þingið komi aftur saman fyrr en næsta fimmtudag, 27. desember.

Pattstaðan í þinginu orsakast af því að Demókratar, sem eiga 49 öldungardeildarsæti af hundrað, harðneita allir að samþykkja hvers lags drög að fjármögnun hins opinbera svo lengi sem landamæramúr Trump er inni í þeim drögum. Sextíu þingmenn þurfa að leggja blessun sína yfir drögin svo ríkisstofnanirnar sem lokað hefur verið geti starfað eðlilega á ný.

Þangað til niðurstaða fæst í málið þurfa starfsmenn þeirra stofnanna sem lokunin nær til annað hvort að starfa launalaust eða taka sér leyfi.


Tengdar fréttir

Fjórðungi ríkisstofnana lokað

Fjórðungi ríkisstofnana í Bandaríkjunum var lokað á miðnætti að staðartíma því þingmenn Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins náðu ekki samkomulagi vegna fjármögnun múrs sem Donald Trump Bandaríkjaforseti vill að rísi á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×