Smárúta sem ekur leið númer 59 á milli Hólmavíkur og Borgarness á vegum Strætó fór út af veginum við Skógskot á Vesturlandi í dag. Bílstjóri rútunnar og allir fimm farþegar sluppu án meiðsla. RÚV greindi fyrst frá þessu.
Vont veður og léleg færð var á svæðinu samkvæmt fréttum af vettvangi. Í samtali við mbl.is staðfesti Guðmundur Heiðar Helguson, upplýsingafulltrúi Strætó að enginn hefði hlotið áverka í óhappinu. Lögregla og verktakinn sem sér um akstur þessarar leiðar eru komin á vettvang. Lögreglan rannsakar nú atvikið en verktakinn fór á vettvang til þess að koma farþegunum á áfangastað þeirra, Borgarnes.
„Við þökkum fyrir það að allir hafi verið í beltum og að ekki hafi farið ver,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is.
Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var sagt að rútan hafi ekið leið 58 milli Stykkishólms og Borgarness. Þetta hefur verið leiðrétt.
Smárúta á vegum Strætó valt á Vesturlandi
Vésteinn Örn Pétursson skrifar
