Stórstjörnurnar Roger Federer og Serena Williams mættust í fyrsta skipti inn á tennisvellinum á nýársdag þegar Sviss hafði betur gegn Bandaríkjunum í Hopmanbikarnum.
Federer og Belinda Bencic mættu Williams og Frances Tiafoe í tvenndarleik þar sem Federer og Bencic höfðu betur 4-2, 4-3 (5-3).
Williams hafði áður unnið Bencic og Federer hafði betur gegn Tiafoe svo lokastaðan í viðureign paranna var 2-1 fyrir Sviss.
Federer og Williams hafa samtals unnið 43 risatitla í tennisheiminum en þau höfðu aldrei spilað gegn hvor öðru áður.
„Þetta var mjög gaman. Hvílíkur heiður að spila við Serena,“ sagði Federer eftir viðureignina.
„Hún er meistari, þú sérð hversu einbeitt hún er og ég elska þann eiginleika.“
Williams fór einnig fögrum orðum um Federer að viðureigninni lokinni. „Hann er besti spilari allra tíma.“
Hopmanbikarinn er keppni á milli þjóða þar sem hver þjóð sendir par til leiks. Keppt er í riðlum þar sem hver viðureign inniheldur tvo einliðaleiki og tvenndarleik. Sviss er ríkjandi meistari í keppninni.
Sport