Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, lagði í kjölfar atkvæðagreiðslunnar fram vantrauststillögu, sem verður á dagskrá á morgun, miðvikudag.
En hvað gerist næst?
Óvissan er mikil, nú þegar niðurstaða atkvæðagreiðslunnar liggur fyrir. Tveir og hálfur mánuður eru þar til að Bretland segir skilið við sambandið. Bretland mun að óbreyttu segja skilið við sambandið klukkan 23 að kvöldi 29. mars, rúmum 46 árum eftir að landið gekk formlega í sambandið.Margir hafa spurt sig og lýst yfir áhyggjum af því muni gerast gangi Bretland úr sambandinu án samnings. Hvaða áhrif slík útganga hefði til dæmis á fyrirtæki og innflutning vara til Bretlands.
Standi Theresa May af sér vantrauststillögu Corbyn, mun hún þurfa að leggja fram nýjar tillögur um næstu skref fyrir þingið fyrir mánudaginn.
Þar sem atkvæðagreiðslan í kvöld fór á þennan veg er ólíklegt að May geti lagt fram tillögur sem svipi mjög til þess samnings sem kolfelldur var af breskum þingheimi í kvöld. Þó er ekki útilokað að May myndi leita til framkvæmdastjórnar ESB og leitast eftir nánari skýringum á umdeildustu atriðunum í samningnum, þá helst varðandi skipan á landamærum Írlands og Norður-Írlands, og leggja samninginn fyrir þingið á ný. Yrði May þá að treysta á að ná að snúa nægilega mörgum þingmönnum til að fá slíkan samning samþykktan. Hins vegar er ljóst að tíminn er alveg að renna út.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, tísti í kjölfar atkvæðagreiðslunnar og sagði að svo virtist sem að ómögulegt væri að ná saman um samning og að svo virtist sem að enginn virtist útgöngu án samnings. Spurði hann svo: „Hver mun loks hafa kjark til að segja hver eina jákvæða útkoman sé?“
Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagðist harma niðurstöðuna en og hvati bresk stjórnvöld til að skýra hvað Bretar ætlist fyrir nú. Tíminn sé nánast á þrotum.
Fjöldi breskra þingmanna úr ólíkum flokkum hafa kallað eftir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu til að gefa bresku þjóðinni færi á að segja skoðun sína á ESB-aðild á nýjan leik, nú þegar fyrir liggur hvernig málum yrði háttað utan sambandsins. Theresa May hefur hins vegar sjálf sagt að slík lausn fæli í sér „svik“ við breska kjósendur sem kusu með útgöngu fyrir hálfu þriðja ári síðan. Auk þess er deilt um að hverju yrði spurt: „Núverandi samningur eða útganga án samnings?“, „Núverandi samningur eða áfram í ESB“ eða „Útganga án samnings eða áfram í ESB?“
Ætli Bretar sér að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit, þyrftu bresk stjórnvöld líklegast að leita á náðir Evrópusambandsins og fá heimild til að fresta útgöngunni þar til að slíkri atkvæðagreiðslu lokinni. Slík leið myndi ekki bara skapa vandræði í Bretlandi, í breska þinginu, heldur einnig í Evrópusambandinu þar sem fyrirhugaðar eru kosningar til Evrópuþingsins í maí. Þar er þegar búið að gera ráðstafanir að dreifa þeim þingsætum sem breskir þingmenn eiga á Evrópuþinginu til þeirra aðildarríkjanna sem eftir yrðu í sambandinu, eftir útgöngu Breta.
Einnig hefur sá möguleiki verið nefndur að þingið tæki málið úr höndum ríkisstjórnarinnar. Að skipuð yrði þverpólitísk nefnd sem myndi reyna að finna lausn á málinu. Slík lausn myndi hins vegar stríða gegn allri pólitískri venju í Bretlandi og verður því að teljast ólíklegt.
Fari svo að vantrauststillaga Corbyn fáist samþykkt á breska þinginu á morgun yrði líklegast boðað til nýrra kosninga. Þá þyrftu Bretar að öllum líkindum að leita til ESB um að fresta útgöngunni til að veita næstu stjórn svigrúm til aðgerða. Margir fréttaskýrendur eru hins vegar á því að ólíklegt sé að tillaga Corbyn verði samþykkt á morgun. Telst ólíklegt að Íhaldsflokkurinn eða stuðningsflokkur stjórarinnar, Lýðræðislegi sambandsflokkurinn (DUP), vilji hætta á að koma vinstristjórn Corbyn til valda.
Annar möguleiki er að bresk stjórnvöld ákveði að draga útgönguna til baka. Evrópudómstóllinn hefur þegar skilað áliti um að Bretland geti hætt við útgönguna á tímabilinu frá því að 50. grein Lissabonsáttmálans er virkjuð og fram að sjálfri útgöngu.
Hvað fælist í útgöngu án samnings?
Takist May ekki að sannfæra ESB eða breska þingið um að skipta um skoðun á samningnum, liggur fyrir að annað hvort þurfi að hverfa frá niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2016 og að Bretland yrði áfram aðili að sambandinu, eða þá að Bretland gangi úr sambandinu án samnings.Íbúar í Bretlandi og öðrum aðildarríkjum ESB myndu finna fyrir útgöngu án samnings, þróist mál á þann veg. Viðskipti myndu raskast þar sem Bretland myndi hverfa úr tollabandaladinu. Slíkt fæli í sér að vörur sem fluttar yrðu til Bretlands frá aðildarríkjum ESB, og öfugt, þyrftu að fara í gegnum tollskoðun. Breska ríkisstjórnin hefur gert ráðstafanir þar sem einnig búist er við miklum umferðartöfum við Ermarsund.
Reglur myndu þó áfram gilda í viðskiptum aðildarríkja ESB og Bretlands þar sem ESB og Bretland eru aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, sem er með eigið regluverk varðandi viðskipti milli landa.
Útganga án samnings myndi einnig hafa áhrif á réttindi einstaklinga, það er Breta sem búa og starfa í aðildarríkjum ESB og ríkisborgara aðildarríkja ESB sem lifa og starfa í Bretlandi. Myndu þeir missa ýmis réttindi við útgöngu.