Erlent

Brottflutningur hermanna frá Sýrlandi hafinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Um tvö þúsund bandarískir hermenn eru í Sýrlandi.
Um tvö þúsund bandarískir hermenn eru í Sýrlandi. AP/Hussein Malla
Bandaríkin eru byrjuð að flytja hermenn og búnað frá Sýrlandi. Eftirlitsaðilar segja bílalest hafa verið ekið frá Sýrlandi til Írak í gærkvöldi. Herinn staðfestir að brottflutningur sé hafinn en neitar að veita frekari upplýsingar um tímaramma og umfang, með tilliti til öryggis.

Mikil óvissa hefur ríkt um brottflutninginn og hafa embættismenn í Bandaríkjunum verið margsaga um hvort og hvenær af honum verði. John Bolton, þjóðaröryggisráðjafi Trump sagði á sunnudaginn að bandarískir hermenn færu ekki fyrr en búið væri að sigra Íslamska ríkið og búið væri að tryggja öryggi sýrlenskra Kúrda, bandamanna Bandaríkjanna.

Þó hafa Tyrkir hótað árásum á sýrlenska Kúrda í norðurhluta Sýrlands, jafnvel þó hermenn Bandaríkjanna verði áfram á svæðinu.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tók þá ákvörðun í síðasta mánuði að kalla hermenn Bandaríkjanna, sem hafa veitt YPG stuðning gegn Íslamska ríkinu. Það gerði hann eftir að hafa talað við Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, í síma.

Ákvörðun Trump kom ráðgjöfum hans, starfsmönnum og forsvarsmönnum hersins á óvart og hefur henni verið harðlega mótmælt. Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði af sér vegna hennar og vegna þess að Bandaríkin væru að yfirgefa Kúrda og skilja þá berskjaldaða eftir.

Sjá einnig: Ætla sér að ráðast á Kúrda hvort sem bandarískir hermenn eru fyrir eða ekki



Kúrdar líta á ákvörðunina sem svik og óttast innrás Tyrkja, upprisu Íslamska ríkisins, sem enn er talið eiga tugi þúsunda vígamanna í Sýrlandi og Írak, og jafnvel hernaðaraðgerðir stjórnarhers Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. Þó hafa YPG leitað á náðir Assad-liða og Rússa, sem eru sömuleiðis andvígir innrás Tyrkja.

Um tvö þúsund bandarískir hermenn eru í Sýrlandi en þar eru einnig franskir hermenn. Embættismenn í Frakklandi draga í efa að þeir geti verið áfram í landinu án Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×