Erlent

Máli Ashley Judd gegn Harvey Weinstein vísað frá að hluta

Kjartan Kjartansson skrifar
Judd heldur því fram að Weinstein hafi reynt að rústa ferli sínum eftir að hún hafnaði honum kynferðislega.
Judd heldur því fram að Weinstein hafi reynt að rústa ferli sínum eftir að hún hafnaði honum kynferðislega. Vísir/EPA

Stefnu leikkonunnar Ashley Judd gegn kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein vegna kynferðislegrar áreitni var vísað frá alríkisdómstóli í Los Angeles í gær. Krafa Judd um að Weinstein hafi gerst sekur um ófrægingu stendur enn.

Judd heldur því fram að hún hafi þurft að hafna kynferðislegum tilburðum Weinstein og hann hafi í kjölfarið reynt að eyðileggja starfsferil hennar, að sögn breska ríkisútvarpsins. Fjöldi kvenna hefur sakað Weinstein um ýmis kynferðisbrot, allt frá kynferðislegri áreitni til nauðgunar.

Stefnu hennar vegna áreitninnar var fyrst vísað frá í september en Judd lagði hana fram aftur eftir að lögum í Kaliforníu um áreitni á vinnustað var breytt til að þau næðu yfir leikstjóra og kvikmyndaframleiðendur. Dómarinn segir nú að ekki sé hægt að láta lögin ná afturvirkt um mál Judd.

Sami dómari segir hins vegar að hluti stefnunnar sem varða það að Weinstein hafi reynt að refsa Judd fyrir að hafna sér með því að útiloka hana í kvikmyndabransanum standi áfram.

Peter Jackson, nýsjálenski leikstjórinn, hefur sagt að hann hafi íhugað að ráða Judd í hlutverk í Hringadróttinssögu árið 2002 en að framleiðslufyrirtæki Weinstein hafi verið með hana á svörtum lista. Weinstein hafi varað hann við því að það væri „martröð“ að vinna með Judd.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×