Innlent

Bergþór stýrir fundi í umhverfis- og samgöngunefnd

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, er snúinn aftur á Alþingi eftir nokkurra vikna sjálfskipað launalaust leyfi eftir Klausturmálið.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, er snúinn aftur á Alþingi eftir nokkurra vikna sjálfskipað launalaust leyfi eftir Klausturmálið. Vísir/Vilhelm
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, stýrir fundi umhverfis- og samgöngunefndar sem hófst klukkan 9 í morgun. Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins.

Bergþór sneri aftur til þingstarfa í liðinni viku en hann tók sér ótímabundið leyfi frá þingstörfum í kjölfar Klaustursmálsins.

Eins og kunnugt var Bergþór einn sex alþingismanna sem komu saman á Klaustur Bar í nóvember á síðasta ári þar sem ýmis niðrandi ummæli um samþingmenn þeirra og aðra nafntogaða einstaklinga voru látin falla.

Samkvæmt samkomulagi þingflokka um nefndarstörf Alþingis fer stjórnarandstaðan með formennsku í þremur nefndum, áðurnefndri umhverfis- og samgöngunefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og velferðarnefnd.

Fyrir helgi benti Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, á það þegar staða Bergþórs í nefndinni hafði komið til umræðu að ákveðið hefði verið að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Samfylkingin, hefði fengið að velja fyrstu nefndina og svo koll af kolli.

„Flokkarnir ráða því algjörlega sjálfir hvaða þingmenn eru valdir í formannssætið. Það er því Miðflokkurinn sem ræður því hver er formaður í umhverfis- og samgöngunefnd. Hinn valkosturinn er að rifta samkomulaginu og þá er allt undir og allir flokkar þurfa að setjast niður og finna aðra umgjörð um störf þingsins,“ sagði Oddný í færslu á Facebook-síðu sinni.


Tengdar fréttir

„Kjörnir fulltrúar geta ekki haft þessar skoðanir“

Henry Alexander Henrysson, aðjúnkt við heimspekideild Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Siðfræðistofnun, óttast að Miðflokksþingmennirnir Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson eigi ekki hæglega afturkvæmt á Alþingi eftir leyfið sem þeir tóku sér vegna Klaustursmálsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×