Íslenski boltinn

Spilaði með Gana á HM og gæti spilað með Val í Pepsi-deildinni í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Annan í leik með Gana á móti Úrúgvæ á HM.
Anthony Annan í leik með Gana á móti Úrúgvæ á HM. Getty/Dominic Barnardt
Valsmenn eru ekki hættir á leikmannamarkaðnum þrátt fyrir að hafa verið liða duglegastir að styrkja sig fyrir Pepsi-deildina í sumar.

Nú síðast er Ganverjinn Anthony Annan orðaður við Hlíðarendaliðið en hann á að baki 67 landsleiki fyrir Gana og spilaði fimm leiki á HM 2010 þegar Ganverjar fóru alla leið í átta liða úrslitin.

Anthony Annan er orðinn 32 ára gamall en hann lék síðasta leik sinn fyrir landslið Gana árið 2013. Hann á að baki leiki í toppdeildunum í Noregi, í Þýskalandi, í Hollandi, á Spáni og í Finnlandi.

Anthony Annan er að leita sér að liði en hann spilaði síðast með HJK í Finnlandi þar sem hann hjálpaði liðinu að vinna finnska titilinn. Hann framlengdi ekki samning sinn við HJK og er því laus.





Ghanasoccernet er að velta framtíð Anthony Annan fyrir sér og þar segir að Valur leiði kapphlaupið um undirskrift þessa öfluga miðjumanns. Valsmenn eru þar að keppa við lið eins Ilves og Rops í Finnlandi og lið Falkenbergs FF í Svíþjóð.

Anthony Annan varð Noregsmeistari með bæði Stabæk og Rosenborg BK og þá reyndi hann einnig fyrir sér hjá þýska félaginu Schalke 04. Undanfarin þrjú ár hefur hann aftur á móti spilað með HJK í Finnlandi.

Þegar vann Annan titilinn með Stabæk sumarið 2008 þá spilaði hann með Veigari Pál Gunnarssyni og Pálma Rafni Pálmasyni. Hann fór þaðan til Rosenborg og vann norska titilinn líka 2009 og 2010.

Anthony Annan lætur Luis Suarez finna fyrir sér á HM 2010.Getty/Clive Rose/



Fleiri fréttir

Sjá meira


×