Sport

Nýir heimsmeistarar krýndir á morgun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Norðmaðurinn Sander Sagosen fagnar marki á HM.
Norðmaðurinn Sander Sagosen fagnar marki á HM. EPA/Henning Bagger
Danmörk og Noregur mætast í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í handbolta í Herning á morgun. Hvorugt liðið hefur áður unnið HM og því verða nýir heimsmeistarar krýndir á morgun.

Mikkel Hansen sýndi allar sínar bestu hliðar þegar Danir unnu ríkjandi heimsmeistara Frakka, 38-30, í fyrri undanúrslitaleiknum í gær. Hansen skoraði tólf mörk úr aðeins 15 skotum og gaf sex stoðsendingar. Hann er langmarkahæstur á HM með 65 mörk.

Danir léku frábæran sóknarleik sem franska vörnin réð ekkert við. Þá vörðu frönsku markverðirnir, Vincent Gerard og Cyril Dum­oulin, aðeins fjögur skot samanlagt.

Þetta er í fjórða sinn sem Danir leika til úrslita á heimsmeistaramóti. Þeir töpuðu úrslitaleik HM 1967, 2011 og 2013.

Í seinni undanúrslitaleiknum vann Noregur sex marka sigur á Þýskalandi, 25-31. Norðmenn komust einnig í úrslit á HM 2017 þar sem þeir töpuðu fyrir Frökkum.

Þetta var fyrsta tap Þjóðverja á HM og heimavöllurinn dugði skammt en báðir undanúrslitaleikirnir fóru fram í Hamborg. Noregur hefur unnið átta af níu leikjum sínum á HM í ár. Eina tapið kom gegn Danmörku í riðlakeppninni.

Magnus Rod skoraði sjö mörk fyrir Noreg í leiknum í gær og þeir Sander Sagosen og Bjarte Myrhol sín sex mörkin hvor. Uwe Gens­heimer skoraði sjö mörk fyrir Þýskaland sem mætir Frakklandi í bronsleiknum á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×