Íslenski boltinn

Segir að Valsmenn þurfi nú að brjóta veggi í búningsklefanum: „Lítið pláss í klefanum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Sigurður í leik með Val sumarið 2017.
Orri Sigurður í leik með Val sumarið 2017. vísir/andri
Orri Sigurður Ómarsson er einn af mörgum nýjum leikmönnum sem Íslandsmeistarar Vals hafa verið að bæta við sig að undanförnu en Valsliðið hefur verið rosalega öflugt á leikmannamarkaðnum í vetur.

Orri Sigurður kom aftur Vals eftir eins árs veru í herbúðum Sarpsborg en Íslandsmeistararnir keyptu hann til baka frá norska félaginu.

Orri var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardaginn og ræddi þar einmitt komu allra þessara leikmanna á Hlíðarenda.

Valsmenn hafa verið mjög duglegir á leikmannamarkaðnum í vetur og breiddin í liðinu er nú orðin gríðarleg. Orri er í sem dæmi í samkeppni um sæti í miðri Valsvörninni við menn eins og Eið Aron Sigurbjörnsson, Rasmus Christiansen og Sebastian Hedlund.

„Ég hefði ekki farið í Val ef ég hefði ekki viljað samkeppni. Við ætlum okkur að vera í öllum keppnum og spila marga leiki í öllum keppnum. Það er bara janúar enn og það getur hellingur gerst. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég labba ekkert inn í liðið. Það eru flottir gaurar að banka á dyrnar um leið og maður gerir mistök. Þetta er spennandi og ég tel að við getum gert enn betur en í fyrra," segir Orri en fótbolti.net segir frá viðtalinu við hann.

Orri Sigurður talaði líka um allt of lítinn búningsklefa meistaraflokks karla hjá Val á Hlíðarenda.

„Klefastemningin er troðin núna, ég get sagt þér það. Það er rosalega lítið pláss í klefanum núna. Það er kominn einhver arkitekt sem á að fara að brjóta niður veggi," sagði Orri en það má lesa meira með því að smella hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×