Íslenski boltinn

Átta marka síðari hálfleikur er KR hafði betur gegn Val

Anton Ingi Leifsson skrifar
Tobias var á skotskónum í kvöld.
Tobias var á skotskónum í kvöld. vísir/vilhelm
KR er komið í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins eftir stórkostlegan undanúrslitaleik gegn grönnum sínum í Val í Egilshöllinni í kvöld.

Lokatölur urðu 5-3 sigur KR en Valur leiddi 3-1 er rúmlega klukkutími var liðinn af leiknum. Endurkoma KR var af dýrari gerðinni.

Staðan var markalaus í hálfleik en síðari hálfleikur var magnaður. Garðar Gunnlaugsson kom Val yfir á 55. mínútu en einungis tveimmur mínútum síðar jafnaði hinn ungi Finnur Tómas Pálmason fyrir KR.

Eftir klukkustund var Garðar aftur á ferðinni er hann kom Val í 2-1 og fimm mínútum síðar skoraði landsliðsbakvörðurinn Birkir Már Sævarsson og kom ríkjandi Íslandsmeisturunum í 3-1. Flestir héldu þá að Valur myndi sigla sigrinum í hús.

Vesturbæjarliðið var þó ekki af baki dottið. Aron Bjarki Jósepsson minnkaði muninn með aukaspyrnumarki á 72. mínútu og tveimur mínútum síðar jafnaði Pablo Punyed metinn með frábæru skoti fyrir utan teig.

Sigurmarkið var svo skrautlegt. Arnar Sveinn Geirsson og Sveinn Sigurður Jóhannesson voru í alls konar basli í öftustu línu Vals sem endaði með því að boltinn barst til Tobias Thomsen, sem lék með Val á síðustu leiktíð, en Daninn átti ekki í erfiðleikum að koma boltanum í markið.

Er níu mínútur voru til leiksloka kom áttunda mark síðari hálfleiksins en þar var á ferðinni vinstri bakvörðurinn Kristinn Jónsson sem gerði út um leikinn fyrir KR. Í úrslitaleiknum mætast KR og Fylkir en leikið verður í Egilshöllinni á mánudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×