Erlent

Lést eftir að rafretta sprakk framan í hann

Kristín Ólafsdóttir skrifar
William Brown.
William Brown.
Karlmaður á þrítugsaldri frá Texasríki í Bandaríkjunum lést í lok janúar eftir að rafretta sem hann var að reykja sprakk framan í hann.

Maðurinn, William Brown, var staddur á bílastæði fyrir utan verslun sem selur rafsígarettur og svokölluð „veip“ í bænum Fort Worth þegar slysið varð þann 27. janúar síðastliðinn. Brown var fluttur á sjúkrahús en lést tveimur dögum síðar af sárum sínum. Samkvæmt frétt bandarísku fréttastofunnar CNN festist brot úr rafrettunni í hálsslagæð hans og skar hana í sundur.

Þá er haft eftir verslunarstjóra veipsjoppunnar að Brown hafi komið inn í búðina skömmu áður en slysið varð og beðið þar um aðstoð. Hann hafi ekki keypt neitt og staldrað stutt við í búðinni.

Í fyrra lést bandarískur karlmaður eftir að rafretta sprakk framan í hann. Brot úr sprengingunni festist í höfuðkúpu hans og þá hlaut hann alvarleg brunasár. Talið var að maðurinn hefði verið fyrsti reykjingamaðurinn vestanhafs sem lætur lífið vegna rafrettusprenginar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×